Karellen

Leikskólinn Undraland hefur verið starfræktur síðan árið 1982, en í desember 2003 fluttum við í núverandi húsnæði. Deildirnar eru þrjár og eru kenndar við gömul eyðibýli hér í Hreppnum; Skógarkot, Heiðarkot og Móakot.

Leikskólastarfið byggist á lögum um leikskóla, Aðalnámskrá leikskóla sem er lögfest námskrá allra leikskóla og skólanámskrá Undralands. Leikskóli er uppeldis- og menntastofnum þar sem börn þroskast og læra í gegnum leik.

Við leggjum áherslu á leikinn í öllum hans myndum og setjum hann í öndvegi vegna þess að í leiknum felst námið.Hann er kennsluaðferð leikskólakennarans og námsleið barnsins. Leikurinn er kjarni uppeldisstarfsins í leikskólanum. Frjáls og sjálfssprottinn leikur er hið eðlilega tjáningarform barnsins. Reynsla barnsins tekur oftast á sig form leiksins. Í frjálsum leik eru mikilvægir uppeldiskostir sem geta eflt alhliða þroska barnanna, þ.e. líkams- ,tilfinninga-, félags-, vitsmuna-, siðgæðis og fagurþroska. Leikurinn er líf barnsins og starf. Segja má að í bernsku sé það að leika sér sama og að læra og afla sér þekkingar. Fjölþætt reynsla elur af sér þekkingu, nýjar tilfinningar, nýjar athafnir og nýja færni.


kynningarefni undraland-.pdf


© 2016 - 2022 Karellen