Karellen


Móttaka nýrra barna - að byrja í leikskóla

Að byrja í leikskóla er ný reynsla fyrir barnið og foreldra þess, því er nauðsynlegt að fá góðan tíma til að kynnast starfseminni í leikskólanum, starfsfólkinu og börnunum. Aðlögun að leikskólanum Undralandi miðast við þrjá daga. Foreldrar og barn verja þessum tíma saman. Barnið upplifir nýjar athafnir í leikskólastarfinu með foreldri sér við hlið og foreldrar fá tækifæri til að kynnast leikskólastarfinu með barni sínu. Hornsteinn er lagður að öryggi og vellíðan barnsins og samstarfi heimilis og skóla.

Þátttökuaðlögun hefur verið að ryðja sér til rúms undanfarin ár hérlendis. Aðferðin hefur verið reynd í skólum sem starfa í anda Reggio Emilia í Svíþjóð í nokkur ár og gefist vel. Hún felst í þvíað foreldrar og börn eru saman í aðlögun. Fyrst er fundur með foreldrum og starfsfólki þar sem starfsfólkið kynnir sig, deildina og segir frá því sem framundan er. Á þennan fund mæta foreldrar án barna, en foreldrar eru svo með sínum börnum fyrstu þrjá daganna í aðlöguninni. Foreldrarnir eru inn á deild með sínum börnum allan tímann (nema þegar þau sofa). Foreldrar sinna sínum börnum skipta á þeim og gefa að borða og eru til staðar. Starfsfólkið tekur að sjálfsögðu líka þátt, skipuleggur daginn setur út verkefni (og skráir). En á fjórða degi koma börnin um morguninn kveðja foreldra og eru svo allan daginn. Einstaka börn hafa foreldra sína fjóra daga en reynslan sýnir að þau eru fá. Starfsfólk leikskóla veit að aðlögunartíminn er oft gríðarlega erfiður, fyrir börn, starfsfólk og foreldra. Oft er mikið grátið og þá þarf sterk bein hjá starfsfólkinu. Með þessari aðferð hefst allt vetrarstarf fyrr og álag á börn, foreldra og starfsfólk er minna.

Hugmyndafræðin á bak við þetta nýja ferli er að öruggir foreldrar smiti eigin öryggiskennd yfir til barna sinna. Öruggir foreldrar = örugg börn. Með því að foreldrar séu fullir þátttakendur frá fyrsta degi öðlast þeir öryggi um dagskipulagið og það sem á sér stað í leikskólanum. Annar kostur er að foreldrar tengjast hver öðrum og milli þeirra skapast oft vinskapur.© 2016 - 2022 Karellen