Karellen

Samstarf heimilis og skóla

Góð samvinna foreldra og leikskóla er forsenda fyrir árangursríkri dvöl og góðri líðan barnsins í leikskólanum. Samvinna foreldra og leikskóla þarf að byggjast á gagnkvæmri virðingu og opnum samskiptum. Daglegar upplýsingar um barnið heima og í leikskólanum eru nauðsynlegar því að oft geta lítil atvik í lífi barnsins valdið breytingum á hegðun þess.

Foreldrar eru velkomnir í leikskólann til þess að taka þátt í því starfi sem þar fer fram. Foreldrar þurfa að láta starfsfólk vita af sér þegar barnið kemur og þegar það er sótt.Þetta er öryggisatriði. Einnig þarf að láta vita ef einhver ókunnugur sækir barnið. Börnum yngri en 12 ára er að jafnaði ekki heimilt að sækja barn í leikskólann, jafnvel þó um systkini sé að ræða. Foreldrum er velkomið að hringja í leikskólann til að spyrja um barnið og eins mun starfsfólk hringja ef þörf krefur. Einnig er hægt að senda skilaboð á karellen eða tölvupóst á undraland@undraland.is. Gott er að muna eftir upplýsingatöflunum fyrir framan deildirnar þar sem fram koma mikilvægar upplýsingar til foreldra. Foreldrum ber að virða þann dvalartíma sem samið hefur verið um. Mælst er til þess að foreldrar láti leikskólann vita um fjarvistir barna sinna.

Við hvetjum foreldra til að spyrja spurninga varðandi börnin og leikskólann, leik þeirra og nám.

Foreldrasamtöl

Tvisvar á ári hittast foreldrar og leikskólakennari barnsins til formlegs samtals um gengi barnsins í leikskólanum.Fyrra samtal er að hausti og það síðara að vori. Að sjálfsögðu geta báðir aðilar einnig óskað eftir viðtali hvenær sem þurfa þykir.Við hvetjum foreldra til að láta samtölin ekki fram hjá sér fara. Deildarstjóri og sérkennslustjóri sitja öll foreldrasamtöl.

Kynningarfundur hverrar deildar fyrir sig að hausti þar sem sagt er frá starfi deildarinnar og leikskólans og sérkennslu.

Upplýsingaflæði

Í reglubundnum samtölum foreldra og kennara gefast tækifæri til samræðna um líðan, nám og þroska barnsins heima og í leikskólanum. Foreldrar þekkja börn sín best og styðja við skólagöngu þeirra með því að veita mikilvægar upplýsingar sem leggja grunn að námi barnsins. Jafnframt leggur leikskólinn sig fram um að foreldrar hafi gott aðgengi að upplýsingum um leikskólastarfið og börn sín svo þeir geti fylgst með skólagöngu þeirra (Aðalnámskrá leikskóla 2011:49)

Leiðir leikskólans eru m.a:

Fréttir á heimasíðu, Karellen og Facebook síðu leikskólans þar sem settar eru inn ýmsar tilkynningar til foreldra um það sem er á döfinni og það sem hefur verið að gerast. Inn á heimasíðuna eru einnig settar ýmsar gagnlegar upplýsingar eins og t.d. matseðill, viðburðadagatal, skóladagatal, krækjur inn á gagnlegar síður og margt fleira.© 2016 - 2024 Karellen