news

Aldursblöndun

01. 07. 2021

Um aldursblöndun

Hér á leikskólanum hefur komið upp sú hugmynd að breyta skipulagi á deildum næsta haust og taka upp aldursblöndun á deildum. Miklar breytingar verða í starfsmannahópnum og verður að koma í ljós hver niðurstaðan verður eftir sumarfrí. En mig langar að setja hér fram rök fyrir því að aldursblanda á deildum.

Það að blanda börnum saman á eldri deildum hefur ýmsa kosti í för með sér. Blandaður aldurshópur skapar börnum fjölbreyttari námstækifæri heldur en þegar um hreinan aldurshóp er að ræða; þau fá fleiri tækifæri á mismunandi þátttöku og hlutverkum innan hópsins. Hin yngri fá tækifæri til að læra af þeim eldri, samsama sig þeim og leita eftir stuðningi þeirra. Þau eldri læra á því að kenna, setja sig í spor annarra og fleiri fá tækifæri til að upplifa sig sem leiðtoga. Rannsóknir benda til þess að nám og starf nemenda í aldursblönduðum hópum hafi örvandi áhrif á félagslegan þroska og svo virðist sem forysta og félagslega ábyrg hegðun eflist við þær aðstæður; svo sem að hjálpast að, deila með sér, skiptast á, taka tillit til annarra, segja satt o.s.frv.

Flest börn eru mislangt komin á mismunandi þroskasviðum, t.a.m. getur barn verið komið langt í hreyfiþroska en skemur í félagsþroska. Í aldursblönduðum barnahópi er fjölbreyttari hegðun viðurkennd og börn sem einhverra hluta vegna eru skemur á veg komin á einu þroskasviði en öðru geta átt auðveldara uppdráttar innan um sér yngri börn sem getur styrkt sjálfsmynd þess og námsáhuga. Eins og fyrr segir er aldursblöndun ekki einungis til góða fyrir yngri börnin, blandaður aldurshópur leiðir til félagsmynsturs sem styrkir ábyrgð, forystu og félagslega færin.

Dagsskipulag yrði sett þannig upp að börnin hefðu mörg tækifæri til að leika sér þvert á deildir yfir daginn. Áfram verður unnið með Snillingahópinn, sem er elsti árgangurinn, og hópar vinna saman þvert á deildir.

Eins og áður sagði hefur ekki verið tekin endanleg ákvörðun um þessa breytingu en ef af verður þá munu heitin á deildunum breytast, allar deildir fá ný nöfn. Þessi nafnabreyting er hugsuð út frá því að ekki sé verið að metast um að nú sé einhver á elstu deildinni, Skógarkoti eða á miðdeildinni, Heiðarkoti.

© 2016 - 2021 Karellen