news

Vikan 19.-23.apríl

21. 04. 2021

Heiðarkotsfréttir!

Við byrjuðum vikuna á hópastarfi, græni hópur fór í smá leiðangur í hópastarfi, fuglaskoðunarferð niður að Litlu Laxá. Börnin voru mjög áhugasöm um umhverfið og fuglana sem við sáum. Við tókum með nokkra sjónauka og myndir af fuglum. Við ræddum aðeins um stað og fjarfugla, útlitið og hvað fuglarnir heita sem við sáum, en við sáum tjalda, hettumáf og nokkra smáfugla sem við ræddum um að gætu verið skógarþrestir. Skemmtileg ferð! Guli hópur gróðursetti sólblómafræin sín í hópastarfi og við fylgjumst áfram með þeim, nokkrar plöntur farnar að kíkja upp úr moldinni. Einnig eru greinarnar sem við erum að fylgjast með orðnar mjög vor-legar, laufblöð sprungin út á öllum og berjaklasar farnir að myndast á rifsberjagreininni.

Í gær fór guli hópur í útikennslu með skógarsafa og kex meðferðis, þau fóru að fylgjast með framkvæmdunum rétt hjá leikskólanum en einnig fóru þau að fylgjast með og skoða fugla, þau sáu marga litla fugla og svo voru myndir meðferðis til að skoða hvaða fuglar þetta gætu verið. Fuglarnir í umhverfinu okkar eru margir hverjir vorboðar og því vel hægt að tengja þá við vorþemað okkar núna í apríl. Græni hópur hitti Lubba, kenndi honum Ö-ö, lékum okkur stuttlega með rím úr vísum Þórarins Eldjárns. Oft mög myndræn og skemmtileg ljóð. Og í lokin æfðu þau sig að þræða.

Í dag fara nokkur börn í Möggustund með henni Möggu sem kemur alltaf til okkar á Heiðarkot á miðvikudögum.

Á morgun er svo sumardagurinn fyrsti og leikskólinn því lokaður.

Á föstudaginn er stefnan tekin á íþróttahúsið og flæði milli deilda eftir hádegi.

Nokkrar myndir eru komnar inn á Karellen og von er á fleirum!


© 2016 - 2021 Karellen