news

Vikan 24. - 28. maí

27. 05. 2021

Það var auðvitað gleðidagur hjá okkur á þriðjudaginn þegar allir foreldrar fengu að koma grímulausir inn í leikskólann. Mikið var gaman að sjá framan í alla aftur… loksins! Upplýsingataflan er því komin aftur í gang og reynum við að koma fréttum til skila þar í lok hvers dags.

Þá hefur Snillingahópur lokið við Vorskólann og gengu þessir þrír dagar mjög vel. Við erum mjög stolt af snillingunum okkar. Þau fóru í ýmsa stöðvavinnu tengda íslensku og stærðfræði fyrstu tvo dagana, þau fóru frímínútur og borðuðu ávexti saman á hverjum degi, þau fóru í hádegismat með þeim einu sinni og í dag var farið í verkefnavinnu, slökun og út í leiki í sólinni. Það var tekið mjög vel á móti okkur í Flúðaskóla, bæði Freyja umsjónarkennari og krakkarnir í 1.bekk.

Það er mikið að gera hjá Snillingahóp þessa dagana en þau kláruðu einnig umferðarskólann í dag. Það eru auðvitað margar umferðarreglur sem þau kunna en mikilvægt að rifja þær upp og voru þau sammála um að mamma og pabbi þyrftu trúlega að rifja upp eitt og annað líka. Þannig að ég sendi með mynd af reglunum fyrir ykkur foreldra til öryggis :)

Kisuhópur hefur verið duglegur að vinna í bátunum sínum þessa vikuna og eru þetta orðin mikil listaverk sem verður gaman að prófa fljótlega. Í dag fóru þau í útikennslu í skóginn, í frjálsan leik og enduðu á ærslabelgnum.

Veðrið leikur við okkur þessa dagana og tökum við fagnandi á móti sumrinu og hækkandi sól. Það styttist auðvitað í sumarfrí hjá nokkrum en fyrir okkur hin sem förum seinna í frí ætlum við að stytta okkur stundir með ýmsu skemmtilegu. Í júní er hefð fyrir því að hafa Fjallgönguviku, Vatnsviku og Skógarviku. Það verður auðvitað í ár líka og ráðast vikurnar yfirleitt af veðri og vindum. Við ætlum að byrja á því að hafa vatnsviku og gera margt skemmtilegt með vatni bæði úti í rigningunni og inni. Það er því fínt að hafa auka föt í töskunni í næstu viku.

Á morgun eru útistöðvar en þá hittist allur leikskólinn úti um kl.10 og geta börnin fengið að prófa mismunandi á hverri stöð ef þau vilja.
© 2016 - 2021 Karellen