news

Vikan 10. - 14.maí

16. 05. 2021

Vikan 10. - 14.maí.

Við byrjuðum vikuna á hópastarfi og náðu allir að klára að teikna sjálfsmynd af sér til að setja í möppuna "Sagan mín". Veðrið lék við okkur þessa vikuna og var því mikil útivera, nánast allt sem hægt er að gera inni er einnig hægt að gera úti og því látum við það alls ekki stoppa okkur að taka með okkur dót eða annað út, allt eftir óskum.

Sveitaferðin á þriðjudaginn heppnaðist frábærlega! Jói kom og sótti okkur á skólarútunni og keyrði okkur í Langholtskot. Það var mjög skemmtilegt að kíkja á lömbin, kindurnar, hestana og nautin. Við sáum einnig fleiri spennandi hluti eins og traktora, gröfu, heyrúllur, tæki og tól sem þurfa víst að vera til í sveitinni. Okkur var síðan boðið upp á smá veitingar áður en Jói kom og sótti okkur. Takk fyrir okkur Valdís! Í útivistinni eftir hádegi fundu börnin síðan hreiður sem var fullt af risaeðlueggjum. Það skapaðist mikil umræða um það hvernig þetta hefði nú lent þarna á milli trjánna hjá okkur og hvar mamman væri eiginlega. Risaeðlumamman mætti sjálf á svæðið og fann eggin sín og þakkaði börnunum fyrir að hafa passað vel upp á þau. Börnin fengu síðan að leika með eggin og reyna að ná risaeðlunum úr klakanu. Þau komust að niðurstöðu um að best væri að nota heitt vatn eða brjóta þau með stórri grein, það gekk auðvitað upp og var þetta skemmtilegt uppbrot í útivistinni.

Við fórum í ævintýraferð upp á Högnastaðaás á miðvikudaginn og var sú ferð mjög skemmtileg. Börnin tóku með sér nesti og vatnsbrúsa í bakpoka, það var stoppað nokkrum sinnum á leiðinni og velt fyrir sér hinum ýmsu hlutum. Við lékum okkur, spáðum í umhverfinu og hljóðunum í kring og að lokum gæddum við okkur á nestinu áður en heim var haldið.

Á föstudaginn var síðan Rusldagurinn en við fórum ásamt Flúðaskóla og týndum rusl í nánasti umhverfi skólanna. Eftir hádegi var frjáls leikur og útivist. Við leggjum áherslu á frjálsa leikinn á fötudögum og er því minna um skipulagt starf þá. Annan hvern föstudag erum við með útistöðvar og einnig höfum við haft flæði á milli deilda í frjálsa leiknum þegar kostur gefst.

© 2016 - 2021 Karellen